Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Húsfell 20.02.2010

Húsfell

Einhvern tíma heyrði ég af fyrirbæri sem var kallað "10 á toppnum" og var þar átt við gamla Bronco jeppa sem komu til landsins með læstu afturdrifi (no-spin). Þessum drifbúnaði voru margir íslendingar ekki vanir. Búnaðurinn hafði þá (ó)náttúru þegar ekið var á malbiki og teknar krappar beygjur hvellsmall í drifinu með snöggum kippum og tók bíllinn stundum stjórnina af bílstjóranum með þeim afleiðingum að þeir ultu á toppinn. Þetta á hinsvegar ekki við um "52 á toppnum" því þar er allt undir Kontról. Nú var fjall númer 7 í sigtinu, Húsfell fyrir ofan Heiðmörk í Garðabæ/Hafnarfjörð. Hópurinn hittist á bílastæðinu við kaldársel ofan við Hafnarfjörð í blíðu og einstakri ljósadýrð á svölum laugardagsmorgni. Hafist var handa við upphitunarleiki, jafnvægiskúnstir, hopp og teygingar. Þá var lagt af stað og gengið eins og þegar farið er á Helgafell en haldið áfram á milli Helgafells og Valahnjúka. Þetta er greinileg leið, gamall smalavegur og reiðstígur. Þegar komið er fyrir endann á Valahnjúkshryggnum sveigir vegurinn til vinstri og sést þá Húsfell eins og eyja í hraunhafi. Svo var gengið yfir mosavaxna hraunölduna og áð í grænni lautu smá stund áður en lagt var á hallann. Gengið var upp suðvestur öxlina og er auðveld og jöfn ganga. Á uppleiðinni var rekinn kosningaáróður fyrir nafni hópsins enda stóð til að kjósa milli "Nágrannar" og "Þorparar" þegar toppnum var náð. Var ýmsu lofað og nú er bara að bíða og heyra hvernig fagurgalinn hljómar. Kosið var með fótunum og gengið í tvær fylkingar. Niðurstaðan var afgerandi "Þorparar" skal hann heita. Tekin var hópmynd á toppnum og svo niður bratta skriðu norðvestan megin. þá var gengið til baka í Valaból og stoppað smástund þar. Eftir skemmtilegar teygingar á bílaplaninu lokaði ég ferðinni eins og venjulega með sundtökum í Álftaneslauginni. 
 

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan. 


 Fjall: Húsfell
 Dagur: lau 20-02-2010
 Upphaf kl:
 09:12
 Hæsta Punkti náð kl:
 10:33
 Uppgöngutími: 1 klst 21 mín
 Göngulok kl: 12:15
 Göngutími alls: 3 klst 03mín
 Upphafshæð GPS: 82 m
 Mesta Hæð GPS: 306 m
 Hækkun: 224 m
 Göngulengd GPS:  10,4 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Móskarðshnjúkar 14.02.2010

Móskarðshnjúkar

Nú var röðin komin að Móskarðshnjúkum. Fjalli númer 6 hjá hópnum og eru þá aðeins 46 fjöll eftir áður en árið er úti. Allir í hópnum verða látnir sverja upp á æru og trú að þeir ætli að klára prógrammið. Ég bakka ekki út úr þessu enda er ég orðheldinn maður. Ég á hinsvegar eftir að ganga plankann sem Páll kom með sem staðgengil stokksins sem allir eiga að stíga á. En nú stóð til að stíga á tind Móskarðshnjúks(a).
Þeir sem ekki vita hvernig á að komast sem næst fjallinu til að hefja göngu skulu nú taka eftir. Akið inn Mosfellsdalinn og beygið inn fyrsta afleggjara til vinstri eftir að ekið er framhjá Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness. Afleggjarinn er merktur "Hrafnhólar" og stendur græn kofastrýta við veginn. Akið eftir veginum og farið yfir brúnna framhjá gulum og rauðum bæjarhúsum og svo meðfram ánni. Ekki skal yfir vaðið á ánni heldur er beygt til hægri og farið í gegnum hliðið (muna að loka á eftir sér) og ekið inn veginn framhjá nokkrum sumarhúsum þar til komið er að enda vegarins en þar er bílaplan. Vegurinn getur stundum verið erfiður en fær flestum bílum yfirleitt. Gengið er yfir ánna á göngubrú og aðeins eftir veginum og aftur yfir litla á. þá er sveigt af veginum, upp melana og stefnt á öxlina hægra megin við áberandi gráan stapa sem ég held að heitir Gráhnjúkur. Þegar komið er upp á hrygginn er farið til vinstri eftir hryggnum upp að áberandi skáskorinni leið sem liggur að skarðinu milli austustu hnjúkanna. þetta sést vel á korti af gönguleiðinni sem við gengum og hægt er að hlaða niður hér að neðan. Kalt var í veðri lágskýjað með snjófjúki og ekki útlit fyrir gott skyggni. En það rofaði til öðruhvoru með fögru útsýni og þegar við vorum hlémegin við tindinn þá blússaði hitinn upp og ríkti hálfgerð Alpa-stemning. Á niðurleiðinni komum við á upp á stapa sem ég held að heiti Gráhnjúkur og stálumst í nokkrar kleinur sem hugulsöm kona hafði borið með sér á tindinn og til baka. Á þessu var smjattað á meðan dáðst var að útsýninu. Þegar komið var niður á bílaplan biðu okkar fleiri pönnukökur og kleinur í boði afmælisbarna fyrri 6 mánaða árs. í næsta mánuði munu svo haustbörnin bjóða bakkelsið. Ég er ekki viss um hvort ég hafi grennst eða bætt á mig í þessari ferð. Eftir kleinuátið brunaði ég svo beint í Álftaneslaugina og skriðsynti 200 metrana. Svo var slappað af í pottinum. 

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu en ekki af viðurkenndu landakorti.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan. 

 Fjall:
 Móskarðshnjúkar
 Dagur:
 sun 14-02-2010
 Upphaf kl:
 11:20
 Hæsta punkti náð kl:
 13:08
 Uppgöngutími: 1 klst 48 mín
 Göngulok kl:
 14:37
 Göngutími alls:
 3 klst 17 mín
 Upphafshæð GPS:
 115 m
 Mesta hæð GPS:  828 m
 Hækkun: 713 m
 Göngulengd GPS:
 7,3 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skálafell 07.02.2010

Skálafell

Lögðum af stað frá bílastæðinu við skíðaskálann eftir smá upphitun. Búið var að skipta stóra hópnum upp í þrjá minni um 50 einstaklingar í hverjum hópi. Einn hópurinn lagði á Móskarðshnjúka, annar á Húsfell ofan Garðabæjar og okkar hópur átti að storma á Skálafell. Hópurinn okkar var myndaður af fólki úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, þ.e.a.s. þeim sem ekki áttu heima á Seltjarnarnesi, vestur- eða austurhluta Reykjavíkur. Hugmyndir komu um tvö nöfn á hópinn okkar; "Nágrannar" eða "Þorparar". Mér skilst að þetta verði ákveðið síðar í kosninum. Veðrið var svalt á bílastæðinu og kólnaði eftir því sem ofar kom. Á uppleiðinni ræddum við heimspeki og heilsumál þjóðarinnar; Haraldur, Eyþór og ég. Þetta er orðinn fasti í göngunum hjá okkur að ræða efni morgunþáttarins "Heimur Hugmyndanna" og höfum við gaman af, enda hefur verið sagt að göngutúrinn sé besti vinur heimspekingsins. Í skjóli við endurvarpsstöðina á Skálafelli mynduðum við hring og var farið í nafnaleik til að læra nöfn allra í hópnum. Ég verð að viðurkenna að þekki ég nú ekki alla þrátt fyrir að vera næstum síðastur í röðinni í leiknum og þurfti að endurtaka öll nöfnin á þeim sem voru á undan mér áður en ég fékk að kynna mig. Eftir að hafa leikið okkur um stund og fengið okkur hressingu sáum við til hópsins sem var að þokast upp Móskarðshnjúkana. Ákveðið var að ganga út á nef Skálafells næst Móskarðshjúkum og veifa til hins hópsins. Vindur var nokkuð stífur og frostið beit í kinnar því var stansað stutt og gefin frjáls ferð niður, sem einhver gárungurinn kallaði "óheftan niðurgang". Við gengum niður snjólausar skíðabrekkurnar. Skemmtileg ganga í björtu veðri með góðu útsýni, hæfilega erfið ganga sem kom mér á óvart. Ég þarf ekki að taka það fram að eftir ferðina gekk ég til lauga á Álftanesi.


Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu en ekki af viðurkenndu landakorti.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Skálafell
 Dagur: sun 07-02-2010
 Upphaf kl:
 10:55
 Hæsta punkti náð kl:
 12:11
 Uppgöngutími: 1 klst 16 mín
 Göngulok kl: 14:00
 Göngutími alls:
 3 klst 05 mín
 Upphafshæð GPS: 388 m
 Mesta Hæð GPS:
 790 m
 Hækkun: 402 m
 Göngulengd GPS:  7,6 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grímannsfell 31.01.2010

Grímannsfell í Mosfellsdal

Á sunnudagsmorgni síðasta degi janúarmánaðar mætti stóri hópurinn á bílastæðið við Gljúfrastein í Mosfellsdal.  Nú átti að takast á við "fjall skáldsins" Grímannsfell. Frábært veður og kjöraðstæður til göngunnar; stilla, bjart og hiti rétt undir frostmarki. Fyrst var byrjað á smá morgunleikfimi á bílastæðinu en svo var hópnum skipt upp í tvo hópa sem gengu sitthvoru megin við köldukvísl en sameinuðust aftur rétt áður en við komum að Helgufossi. Við fossinn tóku margir myndir enda sérstaklega fallegur foss. Nokkru lengra fyrir ofan foss var farið að leita að heppilegu vaði yfir ánna. Svo hófst hin eiginlega uppgangur á fjallið. Þetta er jöfn og þægileg hækkun. Einna verst þótti mér að ekki var farið alveg á hábungu fjalllsins og vantaði lítið upp á, ekki nema 20 metra hækkun og ef til vill um 1 km krók fram og til baka. Einhverjir hlupu á toppinn en ég fylgdi konunni minni og hópnum sem stóð kyrr. Þetta er því aðeins hálfunnið verk í mínum huga og mun ég bæta úr því síðar. Þegar komið var á þann stað sem hópurinn fór hæst tókum við upp nestisbita og drukkum kaffi. Útsýni af fjallinu er gott og sést vel til allra átta. Svo var gengið niður og tæplega 9 km hring lokað aftur á bílastæðinu við Gljúfrastein. Ferðinni hjá mér lauk svo með reglulegri baðferð í Sundlaug Álftaness, sem flestir ættu að vita hvar er eftir óverðskuldaðar fréttafyrirsagnir.
Sem fyrr minni ég á að upplýsingarnar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu, en ekki af löggildu landakorti. Hæsti punktuinn er hæsti punktur ferðarinnar en ekki fjallsins. Hér að neðan er einnig hægt að sjá gönguleiðina í PDF-skjali

Fleiri myndir hér!

Einnig er að finna fleiri myndir á myndavef Ferðafélags Íslands.

 Fjall: Grímannsfell í Mosfellsdal
 Dagur: sun 31-01-2010
 Upphaf kl:  11:07
 Hæsta punkti náð kl:  13:07
 Uppgöngutími:  2 klst
 Göngulok kl:  14:36
 Göngutími alls:  3 klst 29 mín
 Upphafshæð GPS:  84 m
 Mesta hæð GPS:  459 m
 Hækkun: 375 m
 Göngulengd GPS:
 8,9 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mosfell 24.01.2010

Af Mosfelli í Mosfellsdal

Um 160 manna hópur gekk á Mosfell í Mosfellsdal í rigningu, roki og litlu skyggni. Leiðin var aurblaut á mörgum stöðum upp í ökkla eftir skyndileg hlýindi. Mér þótti þetta þokkalega gaman þó að myndavélin mín hafi verið á öðru máli. Skyggnið var ekki mikið þegar upp var komið en útsýnið er örugglega flott í góðu veðri. Uppi á toppnum söng hópurinn svo saman "kátir voru karlar" áður en haldið var aftur af stað niður. Ég þurfti að setja göngugallann í þurrk og þvo skóna mína eftir þessa stuttu en skemmtilegu ferð. Fór svo í sundlaug Álftaness, sund, sauna og heitan pott til að skola af sjálfum mér. Það er fátt betra en að enda svona dag með laugarferð. Hér að neðan er hægt að sjá kort af gönguleiðinni í PDF-skjali (sundlaugaferilinn fylgir ekki). 
Athugið að upplýsingarnar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu eins og áður.

Einnig er hægt að sjá meira á myndavef Ferðafélags Íslands 

 Fjall: Mosfell í Mosfellsdal
 Dagur: sun 24-01-2010
 Upphaf kl: 11:00
 Hæsta punkti náð kl:  11:52
 Uppgöngutími: 52 mín
 Göngulok kl: 12:30
 Göngutími alls: 1 klst 30 mín
 Upphafshæð GPS 74 m
 Mesta hæð GPS 296 m
 Hækkun: 222 m
 Göngulengd: 3,7 km


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úlfarsfell 17.01.2010

Hábunga Úlfarsfells

Fjölmennur hópur gekk á Úlfarsfellið. Lagt var af stað við bílastæði skógræktarinnar við Vesturlandsveg. Veður var milt og gott eins og sjá má af myndum.  Hægt er að sjá kort af gönguleiðinni í PDF-skjali hér að neðan. Upplýsingar í töflunni hér að neðan eru úr GPS tækinu mínu en ekki af löggildu korti.

Fleiri myndir

Einnig er að finna fleiri myndir á myndavef Ferðafélags Íslands

 Fjall: Úlfarsfell við Mosfellsbæ
 Dagsetning: sun-17-01-2010
 Upphaf kl:
 11:00
 Hæsta punkti náð kl:  11:55
 Uppgöngutími: 55 mín
 Göngulok kl: 12:46
 Göngutími alls:
 1 klst 46 mín
 Upphafshæð GPS
 61 m
 Mesta hæð GPS
 308 m
 Hækkun GPS
 245 m
 Göngulengd: 4,0 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Helgafell 10.01.2010

Helgafell


Við hjónin skráðum okkur í verkefnið "Eitt fjall á viku" hjá Ferðafélagi Íslands. Markmiðið er að ganga á 52 fjöll á þessu ári. Fyrsta fjallið sem lagt var á, var Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Upplýsingar í töflunni hér að neðan eru úr GPS tækinu mínu en ekki af löggildu korti.

Fleiri myndir hér!
 
Einnig er hægt að sjá fleiri myndir á myndavef Ferðafélags Íslands
 
Fjall:
 Helgafell við Hafnarfjörð
Dagsetning: Sun-10-01-2010
Upphaf kl:
 11:00
Hæsta punkti náð kl:
 11:52
Uppgöngutími:
 52 mín
Göngulok: 12:53
Göngutími alls:
 1 klst 53 mín
Upphafshæð GPS: 89 m
Mesta hæð GPS:
 348 m
Hækkun GPS:
 259 m
Göngulengd: 5,6 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband