Færsluflokkur: Útivist

Morinsheiði 02.04.2010

Af Morinsheiði séð til eldsstöðvar

Enginn þótti maður með mönnum nema hafa séð eldgosið á Fimmvörðuhálsi með berum augum. Og gengu sumir til verka með meira náttúrueðli en aðrir eins og sýnt var í sjónvarpinu, fækkuðu fötum og veltu sér upp úr nýfallinni öskunni eins og gert er á Jónsmessunótt sér til heilsubóta. Ég slóst því í för með Ferðafélagi Íslands upp á Morinsheiði til að virða fyrir mér glóandi hraunfossana og mannlífið þarna uppfrá. Það voru fimm fullar rútur sem lögðu af stað úr borginni inn í Þórsmörk. Ekið var inn í Bása og þaðan gengum við upp Strákagil og yfir Kattarhryggi upp á Morinsheiði. Ekki sást mikið til eldstöðvarinnar, einstaka gufustrókar komu upp sitthvoru megin við Bröttufönn. Þegar komið var upp á Morinsheiðina sem er einskonar flöt háslétta, blasti við Brattafönn og bakvið hana var eldgosið en ekki sáust neinir eldar. Auðveldur gangur var yfir sléttuna að brúninni við Heljarkamb. þar vorum við stoppuð af Björgunarsveitarvörðum, ekki var lengra komist. Hraunfossarnir sitthvoru megin við Bröttufönn voru báðir storknaðir. Annar fossinn hafði fallið eins og seigfljótandi rjúkandi malbik niður í Hrunagil. þar við gilsegginni á móti mér var parkeraður floti af jeppum og snjósleðum sem höfðu komið yfir jökul Mýrdalsmegin. Hinn fossinn hafði farið í Hvannárgilið og leit út eins og storkið hraun. Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum, Þrátt fyrir að allt þetta sé voðalega tilkomumikið og ógnarkraftar á ferð þá var miklu minna að sjá en ég átti von á. Þó ég stæði þarna rétt tæpan kilómetra frá gosspungunni sást lítið þar sem Brattafönn skyggði alveg á. En ekki vantaði mannfjöldann. Þetta var eins og á útihátíð, fólk gangandi um með börn og hunda. Snjósleðar og jeppar stóðu á hverjum hól austanmegin við Hrunagilið en flugvélar og þyrlur sveimuðu yfir höfðum okkar. Það hefði eflaust gert góða lukku ef einhver þyrlan hefði snarað með sér einum pulsuvagni upp á heiðina. Veður var gott og skyggni þokkalegt en nokkuð kalt upp á heiðinni sjálfri og næðingsvindur. Eftir tæpa klukkustund, og nokkara kakóbolla við Heljarkambinn fór að draga upp í dökk ský og komið snjófjúk. þá ákvað ég að snúa niður enda var mér farið að kólna og búinn að skoða það helsta sem var í boði. Þegar ég kom niður í rútu var ákveðið að halda inn í Langadal, borða kvölverðarnestið og ganga á Valahnjúkinn. Segi ykkur frá því í næsta bloggi...

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Morinsheiði og eldgos á Fimmvörðuhálsi
 Dagur: fös 02-04-2010
 Upphaf kl:
 13:22
 Hæsta punkti náð kl:  15:43
 Uppgöngutími: 2 klst 21 mín
 Göngulok kl:
 17:40
 Göngutími alls:
 4 klst 18 mín
 Upphafshæð GPS:
 251 m
 Mesta hæð GPS
 829 m
 Hækkun: 578 m
 Göngulengd - Meðalhraði:
 10,9 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stóra Dímon 01.04.2010

Útsýni frá Stóru Dímon
Eftir að við höfðum gengið á þríhyrning, skiptist hópurinn. Annar hópurinn fór inn í Þórsmörk til að skoða eldgosið í Fimmvörðuhálsi frá Morinsheiði. Hinn hópurinn lét sér nægja að fara á Stóru Dímon og horfa þaðan. Ég var í seinni hópnum sem skokkaði upp á Stóru Dímon og naut útsýnis Yfir Markarfljótsaura, Fljótshlíðina, Gossúluna úr Fimmvörðuhálsi, Eyjafjallajökul, Vestmannaeyjar og torfuna þar sem Gunnar snéri aftur. Ég stóð hér á annari torfu en horfði á sömu hlíð og nú var kominn tími fyrir mig að snúa aftur til minna fögru heimkynna á Álftanesinu. Í rútunni hallaði ég aftur augunum, lét hugann reika um atburði dagsins, frábæran dag þar sem gengið var á Þrihyrning og Stóru Dímon í einstaklega góðu veðri. Auk þess var ég með páskaegg í farteskinu sem beið eftir áhlaupi. Daginn eftir ætlaði ég á Morinsheiði.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall:
 Stóra Dímon
 Dagur: fim 01-04-2010
 Upphaf kl:
 16:34
 Hæsta punkti náð kl:
 16:44
 Uppgöngutími: 10 mín
 Göngulok kl:
 17:09
 Göngutími alls:
 35 mín
 Upphafshæð GPS:
 66 m
 Mesta Hæð GPS:
 197 m
 Hækkun:
 131 m
 Göngulengd GPS - Meðalhraði:
 0,8 km - 1,4 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þríhyrningur 01.04.2010


Á toppi þríhyrnings, Hekla í bakgrunni

Ef til vill má segja um þessa ferð að þetta hafi verið apríl gabb af bestu gerð. Samkvæmt upprunalegum áætlunum áttum við að ganga á Heklu. Fréttir bárust af því að aðstæður í fjallinu væru ekki góðar, þar væri allt á ís og var förin því sett í salt. Í þessari ferð voru allir hóparnir í "eitt fjall á viku" verkefninu komnir saman. En öll vandamál hafa lausnir og túrnum snögglega breytt í gosferð á Morinsheiði til að virða fyrir okkur hið nýja Ísland. En það reyndist skammtímalausn því þegar á Hvolsvöll var komið var lokað inn í Þórsmörk. Eftir smá fundarhöld var það þingfest að við færum á Þríhyrning fyrir ofan Hvolsvöll en þaðan gætum við séð yfir að gosinu á Fimmvörðuhálsi (reykinn af réttinum). Allt var þetta fallegt, veður bjart og útsýnið eins og lýst er í sögubókunum. Við gengum á alla fjóra tindana á þríhyrning umhverfis Flosadalinn. Af Norðurtindinum var einstakt útsýni til Heklu, Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls, eldstöðvarinnar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökuls (sem var þá ekki farinn að gjósa). Í ferðinni voru fróðir menn sem usu úr viskubrunnum sínum um ýmis eldsumbrot og önnur íslandsátök, Brennunjálu og heitar meyjar. Fróðleik þessum var miðlað bæði í bundnu og óbundnu máli með miklum tilþrifum. Eftir frábæran göngutúr og komið var niður að rútunum sem stóðu við fiskánna, fengu göngumenn páskaegg í boði Góu og FÍ. Þórður Hinn Ungi deildi eggjunum bróðurlega út, þó stúlkurnar hafi reynt að rétta hlut sinn með því að smygla sér í röðina. En fyrst við vorum stödd hérna megin Hellisheiðar var gráupplagt að aka í Fljótshlíðina og taka Stóru Dímon í leiðinni (sem ég heyrði að væri hún en ekki hann). Einnig hafði fréttst að búið væri að opna í Þórsmörk og rann nú fjallaæði á nokkra sem tóku að tala fyrir göngu á Morinsheiði og kíkja á hraunfossana. Ferðalangar voru misupplagðir enda langt liðið á daginn, og sumir búnir með nestið sitt osfrv. Niðurstaðan var sú að hluti af hópnum fór inn á Morinsheiði restin hélt á Stóru Dímon og svo heim. Sjá framhald...

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Þríhyrningur (#13)
 Dagur: fim 01-04-2010
 Upphaf kl:
 10:45 (við Fiská)
 Hæsta punkti náð kl:  13:18
 Uppgöngutími: 3 klst 33 mín
 Göngulok kl: 15:23
 Göngutími alls: 4 klst 38 mín
 Upphafshæð GPS:  130 m
 Mesta hæð GPS:
 699 m     
 Hækkun: 569 m
 Göngulengd - meðalhraði
 8,3 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dýjadalshnjúkur 27.03.2010

Af Dýjadalshnjúki

Þorparar lögðu á Dýjadalshnjúk á köldum og hvössum laugardagsmorgni í lok mars. Dýjadalshnjúkur er angi af Esjunni sem snýr inn að Hvalfirði milli Blikdals og Miðdals. Beygt er inn í Hvalfjörð áður en komið er að göngunum sunnanmegin og ekinn smá spotti þar til komið er að veginum inn í Miðdal. Leiðin sem við fórum á Dýjadalshnjúk var úr litlu gili sem sést strax þar sem beygt er inn á afleggjarann í Miðdal. Við lögðum þar við girðinguna, öxluðum bakpokana og fórum um hliðið. Forvitið hestastóð fylgdi okkur úr hlaði í átt að gilinu en missti svo áhugann fljótt. Mjög auðvelt var að ganga upp gilið og brátt tóku brekkurnar við og útsýnið yfir Hvalfjörð og Miðdal opnaðist eftir því sem ofar dró. Gengið er undir og í hlíðum Dýjadalshnjúk á hægri hönd og Miðdal á vinstri. Þegar Kerlingaskarðið bar fyrir neðan við okkur var beygt upp í brattann þar til toppnum var náð. Þar settumst við niður, köstuðum mæðinni, borðuðum nestið og tókum myndir. Gott útsýni er þaðan yfir Hvalfjörð og Akranes, einnig sést vel á fjöllinn norðan Hvalfjarðar og austur á Botnsúlur. Af myndum virðist bjart og hlýtt en mér var allavega kalt þar sem föðurlandið var skilið eftir í þessari ferð. Svo var haldið áfram inn eftir kambinn í átt að Leynidal, en ekki alla leið . Við stoppuðum við brúnina og horfðum niður í Blikdal og yfir á Kambshorn. Þar var vindkælingin svo mikil að ég hélt að fingurnir ætluðu að detta af mér og brá ég á það ráð að stinga höndunum í úlpuvasann og hreyfa fingurnar með því að kreppa þá og opna á víxl. Ég fékk ekki tilfinningu í fingurna aftur fyrr en ég var kominn hálfa leið niður af fjallinu aftur. Af þessu lærði ég að vera í föðurlandinu og auka lúffur yfir fingravettlingana með í bakpokanum. Frost var þarna um -7°C til -10°C með strekkingsvindi og auðvelt fyrir illa búinn göngumann að kólna niður á stuttum tíma. Hópurinn stoppaði stutt við  þarna uppi á bungunni og rann fljótt niður af fjallinu aftur. þó að frost hafi verið um -4°C og vindur þegar komið var niður að bílunum verkaði það eins og blíður sunnanvindur á mig. Ég fór í Álftaneslaugina og naut þess vel að sitja í pottinum og finna hitan streyma inn og þýða bein og liðamót. Þannig lauk göngu á fjall númer 12.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Dýjadalshnjúkur (#12)
 Dagur: lau 27-03-2010
 Upphaf kl:
 09:00
 Hæsta punkti náð kl:
 11:15
 Uppgöngutími: 2 klst 15 mín
 Göngulok kl:
 12:12
 Göngutími alls:
 3 klst 12 mín
 Upphafshæð GPS:
 53 m
 Mesta hæð GPS: 786 m
 Hækkun:
 733 m
 Göngulengd - meðalhraði
 6,9 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Páskaeggjahnjúkar 21.03.2010

Af móskarðshnjúkum í páskaeggjaleit

Máttur súkkulaðsins er mikill. Að morgni síðasta sunnudags dró hann fjölda manns í slæmu veðri upp á Móskarðshnjúka. En öllum hafði verið lofað páskaeggi frá Góu fyrir að ganga á Móskarðshnjúk. Í upphafi var veðurútlitið ekki mjög bjart og ég lagði af stað heiman frá mér með semingi þó. Leiðin upp að bílastæði var blaut og aurug enda festu nokkrir bíla sína á veginum. Hnjúkarnir voru á bakvið snjómuggu þegar lagt var af stað. Eftir því sem við komum ofar í hlíðina fór að hvessa og snjóa lárétt með. Ákveðið var stuttu seinna að þeir sem vildu gætu snúið við og fór hluti hópsins til baka. Áfram hélt harðasta fólkið og barðist á móti vindi og aðráttarafli, ofar og ofar. Þegar komið var upp í skarðið á milli hnjúkana var ákveðið að láta þetta gott heita enda bálhvasst þarna uppi og fauk fólk til í mestu hviðunum. Þegar við vorum komin niður á bílaplanið aftur var okkur litið upp í skarðið þar sem við höfðum staðið í hríðarstormi fyrir stundu og var þá heiður himinn og leit allt mjög saklaust út. Svona getur íslenska veðrið verið hverfult. En nú var komið að því sem allir biðu eftir - PÁSKAEGGJUNUM. Allir fengu eitt alvöru súkkulaðiegg (ekki álpappírskúlu) í verðlaun og svo var dregið úr einu stóru. Svo brenndi ég út á Álftanes í sund.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Móskarðshnjúkar
 Dagur: sun 21-03-2010
 Upphaf kl:
 10:18
 Hæsta punkti náð kl:
 11:49
 Uppgöngutími:
 1 klst 31 mín
 Göngulok kl:
 12:52
 Göngutími alls:
 2 klst 34 mín
 Upphafshæð GPS:
 151 m
 Mesta hæð GPS:  710 m
 Hækkun: 559 m
 Göngulengd - Meðalhraði GPS
 6,0 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vífilsfell 20.03.2010

Á Vífilsfelli

Á laugardaginn var fóru þorparar á Vífilsfell sem er fjall númer 11 í fjallaframhaldseríunni "52 fjöll". í upphafi var ætlunin að ganga úr Jósepsdalnum en á leiðinni þangað var okkur snúið við í námurnar fyrir neðan fjallið. Líklegast hefur vegurinn inn í Jósepsdal verið vafasamur. Þegar við komum í námurnar var þar fyrir hópur austurbæinganna sem átti að ganga þaðan. Það var því tvöfaldur hópur sem fór á Vífilsfellið upp úr námunum. Við þorparar leyfðum austurbæingum að fara á undan. Þegar komið var upp á stallinn fyrir neðan móbergsklappirnar var að sjálfsögðu farið í leiki. Keppt var í boðhlaupi og auðvitað var ég í vinningsliði. Færið var gott framan af en eftir því sem ofar dró og fleiri tróðu í sporin varð snjórinn á móbergsklöppunum hálli og eftir á að hyggja hefði verið gott að vera með gorma eða nagla undir skónum. En allt gekk þetta vel og við fetuðum okkur örugglega yfir klappirnar. Ekki var útsýnið mikið vegna þokunnar sem í staðinn sló ævintýraljóma á umhverfið. Á leiðinni niður tókum við framúr austurbæingum og var meðalhraðinn á okkur þó ekki meiri en 2 km/klst vegna hálkunnar. þegar komið var aftur niður á stallinn fyrir neðan móbergsklappirnar sást vel yfir undirlendið fyrir neðan og niður í námurnar þar sem bílunum var lagt. Þegar austurbæingarnir komu niður buðu þeir í kökuveislu með kakói en við hjónin þurftum að bruna í bæinn aftur. Ég fór svo í vöðvaslökun í Sundlaug Álftaness til að ljúka ferðinni eins og góðar venjur segja til um. Vífilsfell er mjög skemmtillegt fjall að ganga á og í góðu skyggni er útsýnið yfir höfuðborgina og nágrenni mjög gott.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Vífilsfell
 Dagur: lau 20-03-2010
 Upphaf kl:
 09:09
 Hæsta punkti náð kl:
 10:46
 Uppgöngutími: 1 klst 37 mín
 Göngulok kl: 11:50
 Göngutími alls:
 2 klst 41 mín
 Upphafshæð GPS:
 241 m
 Mesta hæð GPS:
 672 m
 Hækkun:  431 m
 Göngulengd - meðalhraði
 4,3 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Keilir 13.03.2010

Keilir

"Látið ekki fjöllin hlægja að ykkur.." ..var okkur sagt, þegar við gengum í átakið "Eitt fjall á viku". þorparar eru ekki þekktir fyrir það að láta hlægja að sér heldur. En örlagadísirnar riðu um velli og bruggað launráð, því má segja að Keilir hafi brosað að örlögum okkar á laugardaginn var. Reyndar voru allir í góðu skapi, það var ekki upp á það að klaga enda veður milt og vor í lofti. Þegar lagt var af stað var Keilir sveipaður þoku og þegar við komum á toppinn var alltumlykjandi hvít þoka og ekkert útsýni. Þegar ég tók síðustu skerfin upp að hvarfbrúninni að kollinum flugu upp 2 feitar rjúpur rétt í tveggja faðma fjarlægð frá mér eins og hvítar negatífur af Hugin og Munin sem hurfu inn í þokuna. Við fengum okkur nesti og tókum myndir til að hafa ofan af fyrir okkur. Eftir að hafa dvalið um stund á toppnum í von um að þokunni létti, sem minnti mig svolítið á "beðið eftir Godot" þá var  haldið af stað niður enda biðu eftir okkur kleinur og bakkelsi í bílunum. Reyndar var hlaupið niður hlíðina á kafla. Ekki veit ég hvort það voru kleinurnar sem orsökuðu þessa hröðun en samkvæmt GPS mældist ég á 10 km hraða þarna. það stóð nákvæmlega á endum þegar við vorum komin niður á láréttuna, var sem hendi væri veifað og þokan dregin frá eins og leiktjöld. Á sviðinu stóð Keilir baðaður í sólarljósi og brosti sínu blíðasta. Mannfólkið brosti einnig því sólin skein líka á þorparana og ekki laust við það að við svitnuðum við gönguna til baka slík var blíðan. Ég ræddi við samferðamenn mína um heimspeki og vísindi, nánar tiltekið frumsetningar í raunvísindum, trú, heimspeki, rökfræði og þekkingarfræði. Eins og allir vita er göngutúrinn mikill innblástur til heimspekilegrar hugsunar og samræðu. Reyndar hefur mér alltaf fundist hraunið á Reykjanesið og nágrenni Trölladyngju, Höskuldarvellir og Vigdísarvellir vera sögusviðið í Völuspá. Þegar komið var í bílana voru kleinurnar teknar upp og raðað í sig í blíðunni. Meðan við úðuðum í okkur bakkelsinu ræddum við um að prenta ferðabók hópsins með ljósmyndum og sáum við dæmi um slíka bók sem gerð var af Laugavegsgöngu í fyrra. Mér líst mjög vel á að gera svona bók um fallaferðir þorparanna árið 2010. Eftir gönguna fóru nokkrir yfir í Lambafellsgjá, en færri fóru í bláa lónið og einhverjir héldu beint heim. Konan fór með mig í bláa lónið og taldi ég þar þrjá úr hópnum með sjálfum mér og konunni. 10. fjallið í verkefninu hefur þá verið gengið og geta glöggir reiknað í huganum að eftir eru aðeins 42 fjöll. Samkvæmt grófum GPS útreikningi hjá mér brutum við 3000 metra hækkunarmúrinn í þessu verkefni með göngunni á Keili.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Keilir á Reykjanesi
 Dagur: lau 13-03-2010
 Upphaf kl:
 09:27
 Hæsta punkti náð kl:
 10:30
 Uppgöngutími: 1 klst 03 mín
 Göngulok kl:
 12:07
 Göngutími alls:
 2 klst 40 mín
 Upphafshæð GPS:
 119 m
 Mesta hæð GPS:
 394 m
 Hækkun: 275 m
 Göngulengd  - Meðalhraði  7,6 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunganga á Esju 12-03-2010

Morgunganga á Esju

Þá er þessu Esju verkefninu lokið í bili. Síðasta gangan var farin í morgun og allir mætti, hressir og kátir með nýjar húfur á kollinum. Eftir upphitun og axlanudd (sem er besta hópefli sem ég tekið þátt í) var haldið af stað og gengið jafnt og þétt upp að skilti númer 4. Meðalhraðinn var ríflega 3 km/klst í þessari ferð. Eftir smá pásu var aftur gengið niður að Esjustofu og haldið til vinnu. Þetta var mjög skemmtilegt átak með skemmtilegu fólki sem er á hraðri uppleið, því hljótum við að sjást aftur á einhverjum fjallaslóðanum. Takk kærlega fyrir mig!

Sorry! engar myndir úr þessari ferð.

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Esja - frá Esjustofu upp að skilti nr. 4
 Dagur: fös 12.03.2010
 Upphaf kl:
 06:33
 Hæsta punkti náð kl:
 07:20
 Uppgöngutími:
 47 mín
 Göngulok kl:
 07:57
 Göngutími alls: 1 klst 24 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta Hæð GPS:
 389 m
 Hækkun: 372 m
 Göngulengd - meðalhraði
 4,8 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 11.03.2010

Mosfellsbær af Esju í kvöldþoku

Fjórða kvöldgangan á Esjuna í raðgönguverkefni Ferðafélagsins "Esjan, fimm daga í röð" var farin í gærkvöldi. Frábært veður og frábærir ferðafélagar. Lagt var af stað frá Esjubergi upp á Langahrygg og gengið eftir honum að Steini, svo niður hefðbundna leið að Esjustofu þar sem okkar biðu súkkulaðikökur með þverhandarþykku kremi Namminamm! Takk kærlega Fríða! Svo greiddi Þórður út fyrirfram verðlaun fyrir góðan árangur og þátttöku í öllum ferðunum Cintamani lopahúfa með Ferðafélagsmerkinu ísaumuðu. Allir lofuðu að mæta morguninn eftir í fimmtu og síðustu gönguna kl 6:30 f.h.  Þrátt fyrir súkkulaðiátið er ég ekki frá því að ég hafi lagt af á þessum fjórum dögum. A.m.k er ég farinn að passa í buxur sem eru búnar að dvelja ansi lengi innst í fataskápnum og ég var um það bil að fara að afskrifa. Aðeins ein ganga eftir til að ljúka þessu verkefni.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - Esjuberg-Langihryggur-Steinn-Esjustofa
 Dagur: Fim 11-03-2010
 Upphaf kl:
 18:07
 Hæsta punkti náð kl:
 19:37
 Uppgöngutími: 1 klst 30 mín
 Göngulok: 20:40
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafhæð GPS:  10 m
 Mesta hæð GPS:
 604 m
 Hækkun:
 594 m
 Göngulengd - meðalhraði:
 7,0 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 10.03.2010

Esjuganga - litið til baka af göngustígnum

Þriðja kvöldgangan á Esju. Nú var bjartara veður en í göngunni á þriðjudagskvöldið. Gönguleiðin var heldur ekki eins blaut og greinilega snjóað efst í fjallið. Ákveðið var að hafa gönguna einfalda að þessu sinni og farin hefðbundin leið eftir göngustígnum upp fyrir Stein. þegar við vorum komin upp að Steini eftir u.þ.b. 1 klst göngu þéttist þokan og var farin að skríða neðar í hlíðarnar. Við fórum aðeins upp fyrir Stein og stoppuðum í 618 metra hæð enda þokan orðin þykk og sást ekki upp í klettana. Einn mjög vanur úr hópnum fór þó alla leið upp fyrir klettabeltið. Við hin létum okkur nægja þessi hækkun og tekin var hópmynd af okkur. Að því loknu gengum við niður sömu leið og við komum upp. í næstu göngu fáum við verðlaun; SÚKKULAÐIKÖKU!

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - upp að Steini
 Dagur: mið 10-03-2010
 Upphaf kl:
 17:55
 Hæsta punkti náð kl:
 19:15
 Uppgöngutími: 1 klst 20 mín
 Göngulok kl:
 20:10
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafshæð GPS:  17 m
 Mesta hæð GPS:
 618 m
 Hækkun: 601 m
 Göngulengd alls:
 6,7 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband