Keilir 13.03.2010

Keilir

"Látið ekki fjöllin hlægja að ykkur.." ..var okkur sagt, þegar við gengum í átakið "Eitt fjall á viku". þorparar eru ekki þekktir fyrir það að láta hlægja að sér heldur. En örlagadísirnar riðu um velli og bruggað launráð, því má segja að Keilir hafi brosað að örlögum okkar á laugardaginn var. Reyndar voru allir í góðu skapi, það var ekki upp á það að klaga enda veður milt og vor í lofti. Þegar lagt var af stað var Keilir sveipaður þoku og þegar við komum á toppinn var alltumlykjandi hvít þoka og ekkert útsýni. Þegar ég tók síðustu skerfin upp að hvarfbrúninni að kollinum flugu upp 2 feitar rjúpur rétt í tveggja faðma fjarlægð frá mér eins og hvítar negatífur af Hugin og Munin sem hurfu inn í þokuna. Við fengum okkur nesti og tókum myndir til að hafa ofan af fyrir okkur. Eftir að hafa dvalið um stund á toppnum í von um að þokunni létti, sem minnti mig svolítið á "beðið eftir Godot" þá var  haldið af stað niður enda biðu eftir okkur kleinur og bakkelsi í bílunum. Reyndar var hlaupið niður hlíðina á kafla. Ekki veit ég hvort það voru kleinurnar sem orsökuðu þessa hröðun en samkvæmt GPS mældist ég á 10 km hraða þarna. það stóð nákvæmlega á endum þegar við vorum komin niður á láréttuna, var sem hendi væri veifað og þokan dregin frá eins og leiktjöld. Á sviðinu stóð Keilir baðaður í sólarljósi og brosti sínu blíðasta. Mannfólkið brosti einnig því sólin skein líka á þorparana og ekki laust við það að við svitnuðum við gönguna til baka slík var blíðan. Ég ræddi við samferðamenn mína um heimspeki og vísindi, nánar tiltekið frumsetningar í raunvísindum, trú, heimspeki, rökfræði og þekkingarfræði. Eins og allir vita er göngutúrinn mikill innblástur til heimspekilegrar hugsunar og samræðu. Reyndar hefur mér alltaf fundist hraunið á Reykjanesið og nágrenni Trölladyngju, Höskuldarvellir og Vigdísarvellir vera sögusviðið í Völuspá. Þegar komið var í bílana voru kleinurnar teknar upp og raðað í sig í blíðunni. Meðan við úðuðum í okkur bakkelsinu ræddum við um að prenta ferðabók hópsins með ljósmyndum og sáum við dæmi um slíka bók sem gerð var af Laugavegsgöngu í fyrra. Mér líst mjög vel á að gera svona bók um fallaferðir þorparanna árið 2010. Eftir gönguna fóru nokkrir yfir í Lambafellsgjá, en færri fóru í bláa lónið og einhverjir héldu beint heim. Konan fór með mig í bláa lónið og taldi ég þar þrjá úr hópnum með sjálfum mér og konunni. 10. fjallið í verkefninu hefur þá verið gengið og geta glöggir reiknað í huganum að eftir eru aðeins 42 fjöll. Samkvæmt grófum GPS útreikningi hjá mér brutum við 3000 metra hækkunarmúrinn í þessu verkefni með göngunni á Keili.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Keilir á Reykjanesi
 Dagur: lau 13-03-2010
 Upphaf kl:
 09:27
 Hæsta punkti náð kl:
 10:30
 Uppgöngutími: 1 klst 03 mín
 Göngulok kl:
 12:07
 Göngutími alls:
 2 klst 40 mín
 Upphafshæð GPS:
 119 m
 Mesta hæð GPS:
 394 m
 Hækkun: 275 m
 Göngulengd  - Meðalhraði  7,6 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband