Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Páskaeggjahnjúkar 21.03.2010

Af móskarðshnjúkum í páskaeggjaleit

Máttur súkkulaðsins er mikill. Að morgni síðasta sunnudags dró hann fjölda manns í slæmu veðri upp á Móskarðshnjúka. En öllum hafði verið lofað páskaeggi frá Góu fyrir að ganga á Móskarðshnjúk. Í upphafi var veðurútlitið ekki mjög bjart og ég lagði af stað heiman frá mér með semingi þó. Leiðin upp að bílastæði var blaut og aurug enda festu nokkrir bíla sína á veginum. Hnjúkarnir voru á bakvið snjómuggu þegar lagt var af stað. Eftir því sem við komum ofar í hlíðina fór að hvessa og snjóa lárétt með. Ákveðið var stuttu seinna að þeir sem vildu gætu snúið við og fór hluti hópsins til baka. Áfram hélt harðasta fólkið og barðist á móti vindi og aðráttarafli, ofar og ofar. Þegar komið var upp í skarðið á milli hnjúkana var ákveðið að láta þetta gott heita enda bálhvasst þarna uppi og fauk fólk til í mestu hviðunum. Þegar við vorum komin niður á bílaplanið aftur var okkur litið upp í skarðið þar sem við höfðum staðið í hríðarstormi fyrir stundu og var þá heiður himinn og leit allt mjög saklaust út. Svona getur íslenska veðrið verið hverfult. En nú var komið að því sem allir biðu eftir - PÁSKAEGGJUNUM. Allir fengu eitt alvöru súkkulaðiegg (ekki álpappírskúlu) í verðlaun og svo var dregið úr einu stóru. Svo brenndi ég út á Álftanes í sund.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Móskarðshnjúkar
 Dagur: sun 21-03-2010
 Upphaf kl:
 10:18
 Hæsta punkti náð kl:
 11:49
 Uppgöngutími:
 1 klst 31 mín
 Göngulok kl:
 12:52
 Göngutími alls:
 2 klst 34 mín
 Upphafshæð GPS:
 151 m
 Mesta hæð GPS:  710 m
 Hækkun: 559 m
 Göngulengd - Meðalhraði GPS
 6,0 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vífilsfell 20.03.2010

Á Vífilsfelli

Á laugardaginn var fóru þorparar á Vífilsfell sem er fjall númer 11 í fjallaframhaldseríunni "52 fjöll". í upphafi var ætlunin að ganga úr Jósepsdalnum en á leiðinni þangað var okkur snúið við í námurnar fyrir neðan fjallið. Líklegast hefur vegurinn inn í Jósepsdal verið vafasamur. Þegar við komum í námurnar var þar fyrir hópur austurbæinganna sem átti að ganga þaðan. Það var því tvöfaldur hópur sem fór á Vífilsfellið upp úr námunum. Við þorparar leyfðum austurbæingum að fara á undan. Þegar komið var upp á stallinn fyrir neðan móbergsklappirnar var að sjálfsögðu farið í leiki. Keppt var í boðhlaupi og auðvitað var ég í vinningsliði. Færið var gott framan af en eftir því sem ofar dró og fleiri tróðu í sporin varð snjórinn á móbergsklöppunum hálli og eftir á að hyggja hefði verið gott að vera með gorma eða nagla undir skónum. En allt gekk þetta vel og við fetuðum okkur örugglega yfir klappirnar. Ekki var útsýnið mikið vegna þokunnar sem í staðinn sló ævintýraljóma á umhverfið. Á leiðinni niður tókum við framúr austurbæingum og var meðalhraðinn á okkur þó ekki meiri en 2 km/klst vegna hálkunnar. þegar komið var aftur niður á stallinn fyrir neðan móbergsklappirnar sást vel yfir undirlendið fyrir neðan og niður í námurnar þar sem bílunum var lagt. Þegar austurbæingarnir komu niður buðu þeir í kökuveislu með kakói en við hjónin þurftum að bruna í bæinn aftur. Ég fór svo í vöðvaslökun í Sundlaug Álftaness til að ljúka ferðinni eins og góðar venjur segja til um. Vífilsfell er mjög skemmtillegt fjall að ganga á og í góðu skyggni er útsýnið yfir höfuðborgina og nágrenni mjög gott.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Vífilsfell
 Dagur: lau 20-03-2010
 Upphaf kl:
 09:09
 Hæsta punkti náð kl:
 10:46
 Uppgöngutími: 1 klst 37 mín
 Göngulok kl: 11:50
 Göngutími alls:
 2 klst 41 mín
 Upphafshæð GPS:
 241 m
 Mesta hæð GPS:
 672 m
 Hækkun:  431 m
 Göngulengd - meðalhraði
 4,3 km - 2 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Keilir 13.03.2010

Keilir

"Látið ekki fjöllin hlægja að ykkur.." ..var okkur sagt, þegar við gengum í átakið "Eitt fjall á viku". þorparar eru ekki þekktir fyrir það að láta hlægja að sér heldur. En örlagadísirnar riðu um velli og bruggað launráð, því má segja að Keilir hafi brosað að örlögum okkar á laugardaginn var. Reyndar voru allir í góðu skapi, það var ekki upp á það að klaga enda veður milt og vor í lofti. Þegar lagt var af stað var Keilir sveipaður þoku og þegar við komum á toppinn var alltumlykjandi hvít þoka og ekkert útsýni. Þegar ég tók síðustu skerfin upp að hvarfbrúninni að kollinum flugu upp 2 feitar rjúpur rétt í tveggja faðma fjarlægð frá mér eins og hvítar negatífur af Hugin og Munin sem hurfu inn í þokuna. Við fengum okkur nesti og tókum myndir til að hafa ofan af fyrir okkur. Eftir að hafa dvalið um stund á toppnum í von um að þokunni létti, sem minnti mig svolítið á "beðið eftir Godot" þá var  haldið af stað niður enda biðu eftir okkur kleinur og bakkelsi í bílunum. Reyndar var hlaupið niður hlíðina á kafla. Ekki veit ég hvort það voru kleinurnar sem orsökuðu þessa hröðun en samkvæmt GPS mældist ég á 10 km hraða þarna. það stóð nákvæmlega á endum þegar við vorum komin niður á láréttuna, var sem hendi væri veifað og þokan dregin frá eins og leiktjöld. Á sviðinu stóð Keilir baðaður í sólarljósi og brosti sínu blíðasta. Mannfólkið brosti einnig því sólin skein líka á þorparana og ekki laust við það að við svitnuðum við gönguna til baka slík var blíðan. Ég ræddi við samferðamenn mína um heimspeki og vísindi, nánar tiltekið frumsetningar í raunvísindum, trú, heimspeki, rökfræði og þekkingarfræði. Eins og allir vita er göngutúrinn mikill innblástur til heimspekilegrar hugsunar og samræðu. Reyndar hefur mér alltaf fundist hraunið á Reykjanesið og nágrenni Trölladyngju, Höskuldarvellir og Vigdísarvellir vera sögusviðið í Völuspá. Þegar komið var í bílana voru kleinurnar teknar upp og raðað í sig í blíðunni. Meðan við úðuðum í okkur bakkelsinu ræddum við um að prenta ferðabók hópsins með ljósmyndum og sáum við dæmi um slíka bók sem gerð var af Laugavegsgöngu í fyrra. Mér líst mjög vel á að gera svona bók um fallaferðir þorparanna árið 2010. Eftir gönguna fóru nokkrir yfir í Lambafellsgjá, en færri fóru í bláa lónið og einhverjir héldu beint heim. Konan fór með mig í bláa lónið og taldi ég þar þrjá úr hópnum með sjálfum mér og konunni. 10. fjallið í verkefninu hefur þá verið gengið og geta glöggir reiknað í huganum að eftir eru aðeins 42 fjöll. Samkvæmt grófum GPS útreikningi hjá mér brutum við 3000 metra hækkunarmúrinn í þessu verkefni með göngunni á Keili.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Keilir á Reykjanesi
 Dagur: lau 13-03-2010
 Upphaf kl:
 09:27
 Hæsta punkti náð kl:
 10:30
 Uppgöngutími: 1 klst 03 mín
 Göngulok kl:
 12:07
 Göngutími alls:
 2 klst 40 mín
 Upphafshæð GPS:
 119 m
 Mesta hæð GPS:
 394 m
 Hækkun: 275 m
 Göngulengd  - Meðalhraði  7,6 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Morgunganga á Esju 12-03-2010

Morgunganga á Esju

Þá er þessu Esju verkefninu lokið í bili. Síðasta gangan var farin í morgun og allir mætti, hressir og kátir með nýjar húfur á kollinum. Eftir upphitun og axlanudd (sem er besta hópefli sem ég tekið þátt í) var haldið af stað og gengið jafnt og þétt upp að skilti númer 4. Meðalhraðinn var ríflega 3 km/klst í þessari ferð. Eftir smá pásu var aftur gengið niður að Esjustofu og haldið til vinnu. Þetta var mjög skemmtilegt átak með skemmtilegu fólki sem er á hraðri uppleið, því hljótum við að sjást aftur á einhverjum fjallaslóðanum. Takk kærlega fyrir mig!

Sorry! engar myndir úr þessari ferð.

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Esja - frá Esjustofu upp að skilti nr. 4
 Dagur: fös 12.03.2010
 Upphaf kl:
 06:33
 Hæsta punkti náð kl:
 07:20
 Uppgöngutími:
 47 mín
 Göngulok kl:
 07:57
 Göngutími alls: 1 klst 24 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta Hæð GPS:
 389 m
 Hækkun: 372 m
 Göngulengd - meðalhraði
 4,8 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 11.03.2010

Mosfellsbær af Esju í kvöldþoku

Fjórða kvöldgangan á Esjuna í raðgönguverkefni Ferðafélagsins "Esjan, fimm daga í röð" var farin í gærkvöldi. Frábært veður og frábærir ferðafélagar. Lagt var af stað frá Esjubergi upp á Langahrygg og gengið eftir honum að Steini, svo niður hefðbundna leið að Esjustofu þar sem okkar biðu súkkulaðikökur með þverhandarþykku kremi Namminamm! Takk kærlega Fríða! Svo greiddi Þórður út fyrirfram verðlaun fyrir góðan árangur og þátttöku í öllum ferðunum Cintamani lopahúfa með Ferðafélagsmerkinu ísaumuðu. Allir lofuðu að mæta morguninn eftir í fimmtu og síðustu gönguna kl 6:30 f.h.  Þrátt fyrir súkkulaðiátið er ég ekki frá því að ég hafi lagt af á þessum fjórum dögum. A.m.k er ég farinn að passa í buxur sem eru búnar að dvelja ansi lengi innst í fataskápnum og ég var um það bil að fara að afskrifa. Aðeins ein ganga eftir til að ljúka þessu verkefni.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - Esjuberg-Langihryggur-Steinn-Esjustofa
 Dagur: Fim 11-03-2010
 Upphaf kl:
 18:07
 Hæsta punkti náð kl:
 19:37
 Uppgöngutími: 1 klst 30 mín
 Göngulok: 20:40
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafhæð GPS:  10 m
 Mesta hæð GPS:
 604 m
 Hækkun:
 594 m
 Göngulengd - meðalhraði:
 7,0 km - 3 km/klst

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 10.03.2010

Esjuganga - litið til baka af göngustígnum

Þriðja kvöldgangan á Esju. Nú var bjartara veður en í göngunni á þriðjudagskvöldið. Gönguleiðin var heldur ekki eins blaut og greinilega snjóað efst í fjallið. Ákveðið var að hafa gönguna einfalda að þessu sinni og farin hefðbundin leið eftir göngustígnum upp fyrir Stein. þegar við vorum komin upp að Steini eftir u.þ.b. 1 klst göngu þéttist þokan og var farin að skríða neðar í hlíðarnar. Við fórum aðeins upp fyrir Stein og stoppuðum í 618 metra hæð enda þokan orðin þykk og sást ekki upp í klettana. Einn mjög vanur úr hópnum fór þó alla leið upp fyrir klettabeltið. Við hin létum okkur nægja þessi hækkun og tekin var hópmynd af okkur. Að því loknu gengum við niður sömu leið og við komum upp. í næstu göngu fáum við verðlaun; SÚKKULAÐIKÖKU!

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - upp að Steini
 Dagur: mið 10-03-2010
 Upphaf kl:
 17:55
 Hæsta punkti náð kl:
 19:15
 Uppgöngutími: 1 klst 20 mín
 Göngulok kl:
 20:10
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafshæð GPS:  17 m
 Mesta hæð GPS:
 618 m
 Hækkun: 601 m
 Göngulengd alls:
 6,7 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 09.03.2010

Kvöldganga á Esju - Langihryggur og Steinn

Kvöldganga á Esju. Þrjátíu manna hópur staðráðinn að ná sér í lopahúfu lagði af stað inn í þokuna upp á Langahrygg og upp fyrir Stein. Veður var mjög blautt, þykk þoka og mikil aurbleyta í fjallinu. Þegar við komum upp að Steini var eins og hefði fallið aurskriða þarna uppfrá. Fórum aðeins upp fyrir Steininn að snjólínu og ákváðum að snúa við enda svarta þoka. Gengum svo niður göngustíginn að Esjustofu. Þrátt fyrir ágætan fatnað var ég blautur í gegn þegar ég kom niður.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - Langihryggur upp að Steini
 Dagur: þri 09-03-2010
 Upphaf kl:
 18:02
 Hæsta punkti náð kl:
 19:37
 Uppgöngutími: 1 klst 35 mín
 Göngulok kl:
 20:35
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta hæð GPS:
 621 m
 Hækkun: 604 m
 Göngulengd: 6,8 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 08.03.2010

Kvöldganga á Esju og upp í Gunnlaugsskarð

Kvöldganga á Esju. Gengið var upp í Gunnlaugsskarð. Veður var milt en þoka og blautt, með smá snjókomu efst í fjallinu. Um þrjátíu manns tóku þátt í göngunni, þar af voru nokkrir Þorparar eins og ég. Myndirnar sem ég tók eru ekki þær bestu en gaman að sjá fólk á göngu í rökkrinu.


Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan. 

 Fjall: Esja upp í Gunnlaugsskarð
 Dagur: mán 08-03-2010
 Upphaf kl:
 18:00
 Hæsta punkti náð kl:
 19:35
 Uppgöngutími: 1 klst 35 mín
 Göngulok kl:
 20:47
 Göngutími alls:
 2 klst 47 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta hæð GPS:
 565 m
 Hækkun: 548 m
 Göngulengd: 9,2 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Valahnjúkar 06.03.2010

Valahnjúkar
Þorparar eru eins og allt annað venjulegt fólk sem vaknar snemma á morgnana, keyrir útfyrir bæinn til að ganga í kaldri rigningu í ökladjúpu vatni eða aur og þá helst upp í mót. Á laugardaginn sl. gengu þorparar á Valahnjúka og umhverfis Helgafell í rigningu og bleytu. Þrátt fyrir að hafa farið margar ferðir á Helgafell og nágrenni þá hef ég aldrei komið á Valahnjúkana sjálfa. Ferðin hófst á bílastæðinu við Kaldársel og var gengið hægra megin við vatnsból Hafnfirðinga. Sveigt var til vinstri fyrir ofan vatnsbólið, gengið yfir hrygginn inn í Valaból. Þar var sungið "í Hlíðarendakoti". þá var farið í leikinn "hvað komast margir inn í hellinn í Valabóli?"; svar: Allir í hópnum! Frá Valabóli var stímt upp á Valahnjúkahrygginn og gengið með honum endilöngum (ASA). Við endahnjúkinn var farið niður hægra megin (SV) og freistað á hringferð um Helgafell. Nokkrir fóru hinsvegar á Húsfell til að vinna upp gamlar syndir. Við hin gengum í átt að Helgafelli og svo inn í hraunið þar til við komum inn á línuveginn. Farið var aðeins lengra inn í hraunið til að finna fallegar hraunmyndarnir sem sumir segja einskonar dvergvaxnar Dimmuborgir. Því miður var snjór yfir og misstum við af þessari dýrð. Við snérum aftur inn á línuveginn og kláruðum hringinn um Helgafell með því að ganga  í stefnu að Kalárselsvatnsbólinu yfir helluhraunið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Þar biðu bílarnir okkar spakir. Eftir ferðina fór ég á kjörstað og kaus á móti Ice-Save og tók þátt í skoðanakönnun um sameiningarvandamál Álftnesinga. Þá var gengið til lauga í heitapott Álftaneslaugar og rædd stjórnmál við nærstadda.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Valahnjúkar & hringur um Helgafell
 Dagur: lau 06-03-2010
 Upphaf kl:
 08:57
 Hæsta punkti náð: 10:11
 Uppgöngutími: 1 klst 14 mín
 Göngulok kl:
 11:49
 Göngutími alls: 2 klst 52 mín
 Upphafshæð GPS: 86 m
 Mesta hæð GPS:  229 m
 Hækkun 143 m
 Göngulengd 9,1 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Helgafell 27.02.2010

Helgafell í Mosfellsbæ
Nú var komið að Helgafelli í Mosfellsbæ sem er fjall númer 8 af 52 sem við ætlum að ganga á á þessu ári. Þorparar hittust á bílastæði undir Helgafelli sem er við þingvallaafleggjarann yst í Mosfellsdal. Eftir upphitun á planinu var ætt af stað beint af augum upp næsta malarkamb. Í fyrstu snjóaði svolítið en svo jókst snjókoman með þéttum vindi. Þegar við vorum komin upp á kambinn var stoppað og sungið af blöðum lagið "þorparinn" eftir Magnús Eiríksson, en það mun verða einkennislag hópsins. Líklegast hefur söngæfing þessi hljómaði eins og útburðarvæl enda minnti hópurinn frekar á hrossastóð á heiði en skagfirskum hetjukór. Svo var gengið áfram í stórum boga ragnsælis með brekkubrúninni uns við komum að því sem mætti telja toppinn á fjallinu. En þar er gamall steyptur landmælingastólpi. GPS tækið mitt mældi 234 metra hæð á þessum hól en ég held að Helgafellið sé ekki nema 217 metrar. Hér sést hver hæðarskekkjan getur verið í þessum tækjum, allt að 12-15 metrum til eða frá. Skekkjan er minni á lengdar- og breiddarbaug, þar er um að ræða kannski 3 til 4 metra radíus. þá var haldið áfram og leitað að niðurleið (eða það héldum við), flestir voru með augun pírð aftur eða þoku á gleraugunum. Í snjófjúkinu gengum við of langt framhjá niðurleiðinni og fórum nærri hálfan hring um fjallið. Þá fannst okkur nóg um, snérum við og gengum aftur með vindi þar til við fundum niðurleiðina og stungum okkur þar niður. Leiðin var greið eftir það að bílunum. Þessi útúrdúr sést vel á gönguleiðakortinu hér að neðan enda er gönguferillinn stórglæsilegt afrek og annað eins hefur ekki sést á mynd síðan stóra hnúta- og flækjubókin var gefin út. Sannkallað þorparabragð. þó allt hafi gengið vel og engin hætta á ferð minnir þetta mann á að það þarf ekki mikið að bera útaf, meira segja fyrir vanan mann, til að taka villustefnu þegar skellur á hríðarbylur. Annars var þetta hressandi og snörp íslensk vetrarganga með engu útsýni og voru allir rífandi glaðir og rjóðir í kinnum þegar niður var komið. Eftir gönguna fór ég í sundlaugina á Álftanesi og lét mér líða vel.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.


 Fjall: Helgafell í Mosfellsbæ
 Dagur: lau 27-02-2010
 Upphaf kl:
 09:13
 Hæsta punkti náð kl:
 10:01
 Uppgöngutími: 48 mín
 Göngulok kl: 10:49
 Göngutími alls:
 1 klst 36 mín
 Upphafshæð GPS:
 66 m
 Mesta hæð GPS:
 234 m
 Hækkun: 168 m
 Göngulengd GPS:  4,3 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband