Morinsheiði 02.04.2010
28.4.2010 | 14:41
Enginn þótti maður með mönnum nema hafa séð eldgosið á Fimmvörðuhálsi með berum augum. Og gengu sumir til verka með meira náttúrueðli en aðrir eins og sýnt var í sjónvarpinu, fækkuðu fötum og veltu sér upp úr nýfallinni öskunni eins og gert er á Jónsmessunótt sér til heilsubóta. Ég slóst því í för með Ferðafélagi Íslands upp á Morinsheiði til að virða fyrir mér glóandi hraunfossana og mannlífið þarna uppfrá. Það voru fimm fullar rútur sem lögðu af stað úr borginni inn í Þórsmörk. Ekið var inn í Bása og þaðan gengum við upp Strákagil og yfir Kattarhryggi upp á Morinsheiði. Ekki sást mikið til eldstöðvarinnar, einstaka gufustrókar komu upp sitthvoru megin við Bröttufönn. Þegar komið var upp á Morinsheiðina sem er einskonar flöt háslétta, blasti við Brattafönn og bakvið hana var eldgosið en ekki sáust neinir eldar. Auðveldur gangur var yfir sléttuna að brúninni við Heljarkamb. þar vorum við stoppuð af Björgunarsveitarvörðum, ekki var lengra komist. Hraunfossarnir sitthvoru megin við Bröttufönn voru báðir storknaðir. Annar fossinn hafði fallið eins og seigfljótandi rjúkandi malbik niður í Hrunagil. þar við gilsegginni á móti mér var parkeraður floti af jeppum og snjósleðum sem höfðu komið yfir jökul Mýrdalsmegin. Hinn fossinn hafði farið í Hvannárgilið og leit út eins og storkið hraun. Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum, Þrátt fyrir að allt þetta sé voðalega tilkomumikið og ógnarkraftar á ferð þá var miklu minna að sjá en ég átti von á. Þó ég stæði þarna rétt tæpan kilómetra frá gosspungunni sást lítið þar sem Brattafönn skyggði alveg á. En ekki vantaði mannfjöldann. Þetta var eins og á útihátíð, fólk gangandi um með börn og hunda. Snjósleðar og jeppar stóðu á hverjum hól austanmegin við Hrunagilið en flugvélar og þyrlur sveimuðu yfir höfðum okkar. Það hefði eflaust gert góða lukku ef einhver þyrlan hefði snarað með sér einum pulsuvagni upp á heiðina. Veður var gott og skyggni þokkalegt en nokkuð kalt upp á heiðinni sjálfri og næðingsvindur. Eftir tæpa klukkustund, og nokkara kakóbolla við Heljarkambinn fór að draga upp í dökk ský og komið snjófjúk. þá ákvað ég að snúa niður enda var mér farið að kólna og búinn að skoða það helsta sem var í boði. Þegar ég kom niður í rútu var ákveðið að halda inn í Langadal, borða kvölverðarnestið og ganga á Valahnjúkinn. Segi ykkur frá því í næsta bloggi...
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Morinsheiði og eldgos á Fimmvörðuhálsi |
Dagur: | fös 02-04-2010 |
Upphaf kl: | 13:22 |
Hæsta punkti náð kl: | 15:43 |
Uppgöngutími: | 2 klst 21 mín |
Göngulok kl: | 17:40 |
Göngutími alls: | 4 klst 18 mín |
Upphafshæð GPS: | 251 m |
Mesta hæð GPS | 829 m |
Hækkun: | 578 m |
Göngulengd - Meðalhraði: | 10,9 km - 3 km/klst |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.