Þríhyrningur 01.04.2010
20.4.2010 | 15:38
Ef til vill má segja um þessa ferð að þetta hafi verið apríl gabb af bestu gerð. Samkvæmt upprunalegum áætlunum áttum við að ganga á Heklu. Fréttir bárust af því að aðstæður í fjallinu væru ekki góðar, þar væri allt á ís og var förin því sett í salt. Í þessari ferð voru allir hóparnir í "eitt fjall á viku" verkefninu komnir saman. En öll vandamál hafa lausnir og túrnum snögglega breytt í gosferð á Morinsheiði til að virða fyrir okkur hið nýja Ísland. En það reyndist skammtímalausn því þegar á Hvolsvöll var komið var lokað inn í Þórsmörk. Eftir smá fundarhöld var það þingfest að við færum á Þríhyrning fyrir ofan Hvolsvöll en þaðan gætum við séð yfir að gosinu á Fimmvörðuhálsi (reykinn af réttinum). Allt var þetta fallegt, veður bjart og útsýnið eins og lýst er í sögubókunum. Við gengum á alla fjóra tindana á þríhyrning umhverfis Flosadalinn. Af Norðurtindinum var einstakt útsýni til Heklu, Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls, eldstöðvarinnar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökuls (sem var þá ekki farinn að gjósa). Í ferðinni voru fróðir menn sem usu úr viskubrunnum sínum um ýmis eldsumbrot og önnur íslandsátök, Brennunjálu og heitar meyjar. Fróðleik þessum var miðlað bæði í bundnu og óbundnu máli með miklum tilþrifum. Eftir frábæran göngutúr og komið var niður að rútunum sem stóðu við fiskánna, fengu göngumenn páskaegg í boði Góu og FÍ. Þórður Hinn Ungi deildi eggjunum bróðurlega út, þó stúlkurnar hafi reynt að rétta hlut sinn með því að smygla sér í röðina. En fyrst við vorum stödd hérna megin Hellisheiðar var gráupplagt að aka í Fljótshlíðina og taka Stóru Dímon í leiðinni (sem ég heyrði að væri hún en ekki hann). Einnig hafði fréttst að búið væri að opna í Þórsmörk og rann nú fjallaæði á nokkra sem tóku að tala fyrir göngu á Morinsheiði og kíkja á hraunfossana. Ferðalangar voru misupplagðir enda langt liðið á daginn, og sumir búnir með nestið sitt osfrv. Niðurstaðan var sú að hluti af hópnum fór inn á Morinsheiði restin hélt á Stóru Dímon og svo heim. Sjá framhald...
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Þríhyrningur (#13) |
Dagur: | fim 01-04-2010 |
Upphaf kl: | 10:45 (við Fiská) |
Hæsta punkti náð kl: | 13:18 |
Uppgöngutími: | 3 klst 33 mín |
Göngulok kl: | 15:23 |
Göngutími alls: | 4 klst 38 mín |
Upphafshæð GPS: | 130 m |
Mesta hæð GPS: | 699 m |
Hækkun: | 569 m |
Göngulengd - meðalhraði | 8,3 km - 2 km/klst |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.