Valahnjúkar 06.03.2010
10.3.2010 | 12:17
Þorparar eru eins og allt annað venjulegt fólk sem vaknar snemma á morgnana, keyrir útfyrir bæinn til að ganga í kaldri rigningu í ökladjúpu vatni eða aur og þá helst upp í mót. Á laugardaginn sl. gengu þorparar á Valahnjúka og umhverfis Helgafell í rigningu og bleytu. Þrátt fyrir að hafa farið margar ferðir á Helgafell og nágrenni þá hef ég aldrei komið á Valahnjúkana sjálfa. Ferðin hófst á bílastæðinu við Kaldársel og var gengið hægra megin við vatnsból Hafnfirðinga. Sveigt var til vinstri fyrir ofan vatnsbólið, gengið yfir hrygginn inn í Valaból. Þar var sungið "í Hlíðarendakoti". þá var farið í leikinn "hvað komast margir inn í hellinn í Valabóli?"; svar: Allir í hópnum! Frá Valabóli var stímt upp á Valahnjúkahrygginn og gengið með honum endilöngum (ASA). Við endahnjúkinn var farið niður hægra megin (SV) og freistað á hringferð um Helgafell. Nokkrir fóru hinsvegar á Húsfell til að vinna upp gamlar syndir. Við hin gengum í átt að Helgafelli og svo inn í hraunið þar til við komum inn á línuveginn. Farið var aðeins lengra inn í hraunið til að finna fallegar hraunmyndarnir sem sumir segja einskonar dvergvaxnar Dimmuborgir. Því miður var snjór yfir og misstum við af þessari dýrð. Við snérum aftur inn á línuveginn og kláruðum hringinn um Helgafell með því að ganga í stefnu að Kalárselsvatnsbólinu yfir helluhraunið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Þar biðu bílarnir okkar spakir. Eftir ferðina fór ég á kjörstað og kaus á móti Ice-Save og tók þátt í skoðanakönnun um sameiningarvandamál Álftnesinga. Þá var gengið til lauga í heitapott Álftaneslaugar og rædd stjórnmál við nærstadda.
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Valahnjúkar & hringur um Helgafell |
Dagur: | lau 06-03-2010 |
Upphaf kl: | 08:57 |
Hæsta punkti náð: | 10:11 |
Uppgöngutími: | 1 klst 14 mín |
Göngulok kl: | 11:49 |
Göngutími alls: | 2 klst 52 mín |
Upphafshæð GPS: | 86 m |
Mesta hæð GPS: | 229 m |
Hækkun | 143 m |
Göngulengd | 9,1 km |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.