Þríhyrningur 01.04.2010
20.4.2010 | 15:38
Ef til vill má segja um þessa ferð að þetta hafi verið apríl gabb af bestu gerð. Samkvæmt upprunalegum áætlunum áttum við að ganga á Heklu. Fréttir bárust af því að aðstæður í fjallinu væru ekki góðar, þar væri allt á ís og var förin því sett í salt. Í þessari ferð voru allir hóparnir í "eitt fjall á viku" verkefninu komnir saman. En öll vandamál hafa lausnir og túrnum snögglega breytt í gosferð á Morinsheiði til að virða fyrir okkur hið nýja Ísland. En það reyndist skammtímalausn því þegar á Hvolsvöll var komið var lokað inn í Þórsmörk. Eftir smá fundarhöld var það þingfest að við færum á Þríhyrning fyrir ofan Hvolsvöll en þaðan gætum við séð yfir að gosinu á Fimmvörðuhálsi (reykinn af réttinum). Allt var þetta fallegt, veður bjart og útsýnið eins og lýst er í sögubókunum. Við gengum á alla fjóra tindana á þríhyrning umhverfis Flosadalinn. Af Norðurtindinum var einstakt útsýni til Heklu, Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls, eldstöðvarinnar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökuls (sem var þá ekki farinn að gjósa). Í ferðinni voru fróðir menn sem usu úr viskubrunnum sínum um ýmis eldsumbrot og önnur íslandsátök, Brennunjálu og heitar meyjar. Fróðleik þessum var miðlað bæði í bundnu og óbundnu máli með miklum tilþrifum. Eftir frábæran göngutúr og komið var niður að rútunum sem stóðu við fiskánna, fengu göngumenn páskaegg í boði Góu og FÍ. Þórður Hinn Ungi deildi eggjunum bróðurlega út, þó stúlkurnar hafi reynt að rétta hlut sinn með því að smygla sér í röðina. En fyrst við vorum stödd hérna megin Hellisheiðar var gráupplagt að aka í Fljótshlíðina og taka Stóru Dímon í leiðinni (sem ég heyrði að væri hún en ekki hann). Einnig hafði fréttst að búið væri að opna í Þórsmörk og rann nú fjallaæði á nokkra sem tóku að tala fyrir göngu á Morinsheiði og kíkja á hraunfossana. Ferðalangar voru misupplagðir enda langt liðið á daginn, og sumir búnir með nestið sitt osfrv. Niðurstaðan var sú að hluti af hópnum fór inn á Morinsheiði restin hélt á Stóru Dímon og svo heim. Sjá framhald...
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Þríhyrningur (#13) |
Dagur: | fim 01-04-2010 |
Upphaf kl: | 10:45 (við Fiská) |
Hæsta punkti náð kl: | 13:18 |
Uppgöngutími: | 3 klst 33 mín |
Göngulok kl: | 15:23 |
Göngutími alls: | 4 klst 38 mín |
Upphafshæð GPS: | 130 m |
Mesta hæð GPS: | 699 m |
Hækkun: | 569 m |
Göngulengd - meðalhraði | 8,3 km - 2 km/klst |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Útivist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýjadalshnjúkur 27.03.2010
20.4.2010 | 10:50
Þorparar lögðu á Dýjadalshnjúk á köldum og hvössum laugardagsmorgni í lok mars. Dýjadalshnjúkur er angi af Esjunni sem snýr inn að Hvalfirði milli Blikdals og Miðdals. Beygt er inn í Hvalfjörð áður en komið er að göngunum sunnanmegin og ekinn smá spotti þar til komið er að veginum inn í Miðdal. Leiðin sem við fórum á Dýjadalshnjúk var úr litlu gili sem sést strax þar sem beygt er inn á afleggjarann í Miðdal. Við lögðum þar við girðinguna, öxluðum bakpokana og fórum um hliðið. Forvitið hestastóð fylgdi okkur úr hlaði í átt að gilinu en missti svo áhugann fljótt. Mjög auðvelt var að ganga upp gilið og brátt tóku brekkurnar við og útsýnið yfir Hvalfjörð og Miðdal opnaðist eftir því sem ofar dró. Gengið er undir og í hlíðum Dýjadalshnjúk á hægri hönd og Miðdal á vinstri. Þegar Kerlingaskarðið bar fyrir neðan við okkur var beygt upp í brattann þar til toppnum var náð. Þar settumst við niður, köstuðum mæðinni, borðuðum nestið og tókum myndir. Gott útsýni er þaðan yfir Hvalfjörð og Akranes, einnig sést vel á fjöllinn norðan Hvalfjarðar og austur á Botnsúlur. Af myndum virðist bjart og hlýtt en mér var allavega kalt þar sem föðurlandið var skilið eftir í þessari ferð. Svo var haldið áfram inn eftir kambinn í átt að Leynidal, en ekki alla leið . Við stoppuðum við brúnina og horfðum niður í Blikdal og yfir á Kambshorn. Þar var vindkælingin svo mikil að ég hélt að fingurnir ætluðu að detta af mér og brá ég á það ráð að stinga höndunum í úlpuvasann og hreyfa fingurnar með því að kreppa þá og opna á víxl. Ég fékk ekki tilfinningu í fingurna aftur fyrr en ég var kominn hálfa leið niður af fjallinu aftur. Af þessu lærði ég að vera í föðurlandinu og auka lúffur yfir fingravettlingana með í bakpokanum. Frost var þarna um -7°C til -10°C með strekkingsvindi og auðvelt fyrir illa búinn göngumann að kólna niður á stuttum tíma. Hópurinn stoppaði stutt við þarna uppi á bungunni og rann fljótt niður af fjallinu aftur. þó að frost hafi verið um -4°C og vindur þegar komið var niður að bílunum verkaði það eins og blíður sunnanvindur á mig. Ég fór í Álftaneslaugina og naut þess vel að sitja í pottinum og finna hitan streyma inn og þýða bein og liðamót. Þannig lauk göngu á fjall númer 12.
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Dýjadalshnjúkur (#12) |
Dagur: | lau 27-03-2010 |
Upphaf kl: | 09:00 |
Hæsta punkti náð kl: | 11:15 |
Uppgöngutími: | 2 klst 15 mín |
Göngulok kl: | 12:12 |
Göngutími alls: | 3 klst 12 mín |
Upphafshæð GPS: | 53 m |
Mesta hæð GPS: | 786 m |
Hækkun: | 733 m |
Göngulengd - meðalhraði | 6,9 km - 2 km/klst |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Útivist | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)