Færsluflokkur: Vefurinn
Helgafell 27.02.2010
4.3.2010 | 15:13
Nú var komið að Helgafelli í Mosfellsbæ sem er fjall númer 8 af 52 sem við ætlum að ganga á á þessu ári. Þorparar hittust á bílastæði undir Helgafelli sem er við þingvallaafleggjarann yst í Mosfellsdal. Eftir upphitun á planinu var ætt af stað beint af augum upp næsta malarkamb. Í fyrstu snjóaði svolítið en svo jókst snjókoman með þéttum vindi. Þegar við vorum komin upp á kambinn var stoppað og sungið af blöðum lagið "þorparinn" eftir Magnús Eiríksson, en það mun verða einkennislag hópsins. Líklegast hefur söngæfing þessi hljómaði eins og útburðarvæl enda minnti hópurinn frekar á hrossastóð á heiði en skagfirskum hetjukór. Svo var gengið áfram í stórum boga ragnsælis með brekkubrúninni uns við komum að því sem mætti telja toppinn á fjallinu. En þar er gamall steyptur landmælingastólpi. GPS tækið mitt mældi 234 metra hæð á þessum hól en ég held að Helgafellið sé ekki nema 217 metrar. Hér sést hver hæðarskekkjan getur verið í þessum tækjum, allt að 12-15 metrum til eða frá. Skekkjan er minni á lengdar- og breiddarbaug, þar er um að ræða kannski 3 til 4 metra radíus. þá var haldið áfram og leitað að niðurleið (eða það héldum við), flestir voru með augun pírð aftur eða þoku á gleraugunum. Í snjófjúkinu gengum við of langt framhjá niðurleiðinni og fórum nærri hálfan hring um fjallið. Þá fannst okkur nóg um, snérum við og gengum aftur með vindi þar til við fundum niðurleiðina og stungum okkur þar niður. Leiðin var greið eftir það að bílunum. Þessi útúrdúr sést vel á gönguleiðakortinu hér að neðan enda er gönguferillinn stórglæsilegt afrek og annað eins hefur ekki sést á mynd síðan stóra hnúta- og flækjubókin var gefin út. Sannkallað þorparabragð. þó allt hafi gengið vel og engin hætta á ferð minnir þetta mann á að það þarf ekki mikið að bera útaf, meira segja fyrir vanan mann, til að taka villustefnu þegar skellur á hríðarbylur. Annars var þetta hressandi og snörp íslensk vetrarganga með engu útsýni og voru allir rífandi glaðir og rjóðir í kinnum þegar niður var komið. Eftir gönguna fór ég í sundlaugina á Álftanesi og lét mér líða vel.
Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.
Fjall: | Helgafell í Mosfellsbæ |
Dagur: | lau 27-02-2010 |
Upphaf kl: | 09:13 |
Hæsta punkti náð kl: | 10:01 |
Uppgöngutími: | 48 mín |
Göngulok kl: | 10:49 |
Göngutími alls: | 1 klst 36 mín |
Upphafshæð GPS: | 66 m |
Mesta hæð GPS: | 234 m |
Hækkun: | 168 m |
Göngulengd GPS: | 4,3 km |
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:
Vefurinn | Breytt 10.3.2010 kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)