Kvöldganga á Esju 09.03.2010

Kvöldganga á Esju - Langihryggur og Steinn

Kvöldganga á Esju. Þrjátíu manna hópur staðráðinn að ná sér í lopahúfu lagði af stað inn í þokuna upp á Langahrygg og upp fyrir Stein. Veður var mjög blautt, þykk þoka og mikil aurbleyta í fjallinu. Þegar við komum upp að Steini var eins og hefði fallið aurskriða þarna uppfrá. Fórum aðeins upp fyrir Steininn að snjólínu og ákváðum að snúa við enda svarta þoka. Gengum svo niður göngustíginn að Esjustofu. Þrátt fyrir ágætan fatnað var ég blautur í gegn þegar ég kom niður.

Myndir úr ferðinni!

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.  

 Fjall: Esja - Langihryggur upp að Steini
 Dagur: þri 09-03-2010
 Upphaf kl:
 18:02
 Hæsta punkti náð kl:
 19:37
 Uppgöngutími: 1 klst 35 mín
 Göngulok kl:
 20:35
 Göngutími alls:
 2 klst 33 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta hæð GPS:
 621 m
 Hækkun: 604 m
 Göngulengd: 6,8 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kvöldganga á Esju 08.03.2010

Kvöldganga á Esju og upp í Gunnlaugsskarð

Kvöldganga á Esju. Gengið var upp í Gunnlaugsskarð. Veður var milt en þoka og blautt, með smá snjókomu efst í fjallinu. Um þrjátíu manns tóku þátt í göngunni, þar af voru nokkrir Þorparar eins og ég. Myndirnar sem ég tók eru ekki þær bestu en gaman að sjá fólk á göngu í rökkrinu.


Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan. 

 Fjall: Esja upp í Gunnlaugsskarð
 Dagur: mán 08-03-2010
 Upphaf kl:
 18:00
 Hæsta punkti náð kl:
 19:35
 Uppgöngutími: 1 klst 35 mín
 Göngulok kl:
 20:47
 Göngutími alls:
 2 klst 47 mín
 Upphafshæð GPS:
 17 m
 Mesta hæð GPS:
 565 m
 Hækkun: 548 m
 Göngulengd: 9,2 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Valahnjúkar 06.03.2010

Valahnjúkar
Þorparar eru eins og allt annað venjulegt fólk sem vaknar snemma á morgnana, keyrir útfyrir bæinn til að ganga í kaldri rigningu í ökladjúpu vatni eða aur og þá helst upp í mót. Á laugardaginn sl. gengu þorparar á Valahnjúka og umhverfis Helgafell í rigningu og bleytu. Þrátt fyrir að hafa farið margar ferðir á Helgafell og nágrenni þá hef ég aldrei komið á Valahnjúkana sjálfa. Ferðin hófst á bílastæðinu við Kaldársel og var gengið hægra megin við vatnsból Hafnfirðinga. Sveigt var til vinstri fyrir ofan vatnsbólið, gengið yfir hrygginn inn í Valaból. Þar var sungið "í Hlíðarendakoti". þá var farið í leikinn "hvað komast margir inn í hellinn í Valabóli?"; svar: Allir í hópnum! Frá Valabóli var stímt upp á Valahnjúkahrygginn og gengið með honum endilöngum (ASA). Við endahnjúkinn var farið niður hægra megin (SV) og freistað á hringferð um Helgafell. Nokkrir fóru hinsvegar á Húsfell til að vinna upp gamlar syndir. Við hin gengum í átt að Helgafelli og svo inn í hraunið þar til við komum inn á línuveginn. Farið var aðeins lengra inn í hraunið til að finna fallegar hraunmyndarnir sem sumir segja einskonar dvergvaxnar Dimmuborgir. Því miður var snjór yfir og misstum við af þessari dýrð. Við snérum aftur inn á línuveginn og kláruðum hringinn um Helgafell með því að ganga  í stefnu að Kalárselsvatnsbólinu yfir helluhraunið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Þar biðu bílarnir okkar spakir. Eftir ferðina fór ég á kjörstað og kaus á móti Ice-Save og tók þátt í skoðanakönnun um sameiningarvandamál Álftnesinga. Þá var gengið til lauga í heitapott Álftaneslaugar og rædd stjórnmál við nærstadda.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.

 Fjall: Valahnjúkar & hringur um Helgafell
 Dagur: lau 06-03-2010
 Upphaf kl:
 08:57
 Hæsta punkti náð: 10:11
 Uppgöngutími: 1 klst 14 mín
 Göngulok kl:
 11:49
 Göngutími alls: 2 klst 52 mín
 Upphafshæð GPS: 86 m
 Mesta hæð GPS:  229 m
 Hækkun 143 m
 Göngulengd 9,1 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Helgafell 27.02.2010

Helgafell í Mosfellsbæ
Nú var komið að Helgafelli í Mosfellsbæ sem er fjall númer 8 af 52 sem við ætlum að ganga á á þessu ári. Þorparar hittust á bílastæði undir Helgafelli sem er við þingvallaafleggjarann yst í Mosfellsdal. Eftir upphitun á planinu var ætt af stað beint af augum upp næsta malarkamb. Í fyrstu snjóaði svolítið en svo jókst snjókoman með þéttum vindi. Þegar við vorum komin upp á kambinn var stoppað og sungið af blöðum lagið "þorparinn" eftir Magnús Eiríksson, en það mun verða einkennislag hópsins. Líklegast hefur söngæfing þessi hljómaði eins og útburðarvæl enda minnti hópurinn frekar á hrossastóð á heiði en skagfirskum hetjukór. Svo var gengið áfram í stórum boga ragnsælis með brekkubrúninni uns við komum að því sem mætti telja toppinn á fjallinu. En þar er gamall steyptur landmælingastólpi. GPS tækið mitt mældi 234 metra hæð á þessum hól en ég held að Helgafellið sé ekki nema 217 metrar. Hér sést hver hæðarskekkjan getur verið í þessum tækjum, allt að 12-15 metrum til eða frá. Skekkjan er minni á lengdar- og breiddarbaug, þar er um að ræða kannski 3 til 4 metra radíus. þá var haldið áfram og leitað að niðurleið (eða það héldum við), flestir voru með augun pírð aftur eða þoku á gleraugunum. Í snjófjúkinu gengum við of langt framhjá niðurleiðinni og fórum nærri hálfan hring um fjallið. Þá fannst okkur nóg um, snérum við og gengum aftur með vindi þar til við fundum niðurleiðina og stungum okkur þar niður. Leiðin var greið eftir það að bílunum. Þessi útúrdúr sést vel á gönguleiðakortinu hér að neðan enda er gönguferillinn stórglæsilegt afrek og annað eins hefur ekki sést á mynd síðan stóra hnúta- og flækjubókin var gefin út. Sannkallað þorparabragð. þó allt hafi gengið vel og engin hætta á ferð minnir þetta mann á að það þarf ekki mikið að bera útaf, meira segja fyrir vanan mann, til að taka villustefnu þegar skellur á hríðarbylur. Annars var þetta hressandi og snörp íslensk vetrarganga með engu útsýni og voru allir rífandi glaðir og rjóðir í kinnum þegar niður var komið. Eftir gönguna fór ég í sundlaugina á Álftanesi og lét mér líða vel.

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan.


 Fjall: Helgafell í Mosfellsbæ
 Dagur: lau 27-02-2010
 Upphaf kl:
 09:13
 Hæsta punkti náð kl:
 10:01
 Uppgöngutími: 48 mín
 Göngulok kl: 10:49
 Göngutími alls:
 1 klst 36 mín
 Upphafshæð GPS:
 66 m
 Mesta hæð GPS:
 234 m
 Hækkun: 168 m
 Göngulengd GPS:  4,3 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Húsfell 20.02.2010

Húsfell

Einhvern tíma heyrði ég af fyrirbæri sem var kallað "10 á toppnum" og var þar átt við gamla Bronco jeppa sem komu til landsins með læstu afturdrifi (no-spin). Þessum drifbúnaði voru margir íslendingar ekki vanir. Búnaðurinn hafði þá (ó)náttúru þegar ekið var á malbiki og teknar krappar beygjur hvellsmall í drifinu með snöggum kippum og tók bíllinn stundum stjórnina af bílstjóranum með þeim afleiðingum að þeir ultu á toppinn. Þetta á hinsvegar ekki við um "52 á toppnum" því þar er allt undir Kontról. Nú var fjall númer 7 í sigtinu, Húsfell fyrir ofan Heiðmörk í Garðabæ/Hafnarfjörð. Hópurinn hittist á bílastæðinu við kaldársel ofan við Hafnarfjörð í blíðu og einstakri ljósadýrð á svölum laugardagsmorgni. Hafist var handa við upphitunarleiki, jafnvægiskúnstir, hopp og teygingar. Þá var lagt af stað og gengið eins og þegar farið er á Helgafell en haldið áfram á milli Helgafells og Valahnjúka. Þetta er greinileg leið, gamall smalavegur og reiðstígur. Þegar komið er fyrir endann á Valahnjúkshryggnum sveigir vegurinn til vinstri og sést þá Húsfell eins og eyja í hraunhafi. Svo var gengið yfir mosavaxna hraunölduna og áð í grænni lautu smá stund áður en lagt var á hallann. Gengið var upp suðvestur öxlina og er auðveld og jöfn ganga. Á uppleiðinni var rekinn kosningaáróður fyrir nafni hópsins enda stóð til að kjósa milli "Nágrannar" og "Þorparar" þegar toppnum var náð. Var ýmsu lofað og nú er bara að bíða og heyra hvernig fagurgalinn hljómar. Kosið var með fótunum og gengið í tvær fylkingar. Niðurstaðan var afgerandi "Þorparar" skal hann heita. Tekin var hópmynd á toppnum og svo niður bratta skriðu norðvestan megin. þá var gengið til baka í Valaból og stoppað smástund þar. Eftir skemmtilegar teygingar á bílaplaninu lokaði ég ferðinni eins og venjulega með sundtökum í Álftaneslauginni. 
 

Myndir úr ferðinni!

Myndir af myndavef FÍ

Ath! upplýsingar í töflunni eru úr GPS tækinu mínu.
Einnig er hægt að hlaða niður korti af gönguleiðinni í PDF skjali hér að neðan. 


 Fjall: Húsfell
 Dagur: lau 20-02-2010
 Upphaf kl:
 09:12
 Hæsta Punkti náð kl:
 10:33
 Uppgöngutími: 1 klst 21 mín
 Göngulok kl: 12:15
 Göngutími alls: 3 klst 03mín
 Upphafshæð GPS: 82 m
 Mesta Hæð GPS: 306 m
 Hækkun: 224 m
 Göngulengd GPS:  10,4 km

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband